Trúarlegar vangaveltur
Biblían inniheldur ólík sjónarmið um borgir. Gjarnan eru borgir átaldar fyrir ranglæti og syndir. Borgir stuðla að ójafnrétti, þær eru kærleikssnauðar gagnvart þeim sem hafa tapað heilsu eða getunni til vinnu, og í borgunum misnota hin ríku og valdamiklu þau fátæku. Það er ekki að ástæðulausu að Kain, sem drap bróður sinn, byggir fyrstu borgina (1. Mósebók 4.17) og að allt frá Sódómu í fyrstu bók Biblíunnar til Babýlon í þeirri síðustu, birtast borgir sem illir og spilltir staðir. En á sama tíma fer ritningin fögrum orðum um Jerúsalem, borg friðarins. Þar býr Drottinn sjálfur, þangað mun fólk flykkjast í neyð sinni í leit að réttlæti og friði. „Og þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“ (Jesaja 2.4) Í raun og veru náði Jerúsalem ekki að standa undir þessari draumsýn. Líkt og flestar borgir var hún full af illsku og því gjarnan viðfangsefni dómsorða og sakfellinga spámannanna (Jesaja 1.21-23; Jeremía 6.6-8). Samt sem áður lifði vonin um borg friðarins áfram. Í Opinberunarbók Jóhannesar, síðustu bók Biblíunnar, er ekki bara talað um Babýlon, tákngerfing valdasýki, skelfingar og eyðileggingar, heldur einnig um nýju Jerúsalem, borgar þar sem hliðin standa alltaf opin og allir hafa aðgang að gæðum hennar og fegurð. (Opinberunarbók Jóhannesar 21.9-27). Á meðan Babýlon er dæmd til að falla er Jerúsalem sjálfbær og mun standa um alla tíð.Spurningar
- Hafa þessi ólíku sjónarmið varðandi borgir einhverja stoð í samtíma okkar?
- Er eitthvað við borgir sem ýtir undir mismunun milli fólks?
- Hvernig getur vonin um hina nýju Jerúsalem veitt okkur innblástur til að vinna að sjálfbærum borgum og samfélögum?
Áskorun
Leggur stjórnmálafólk í þínu sveitarfélagi áherslu á sjálfbæra þróun? Getur þú haft áhrif á þau, reynt að hvetja þau og efla?
Bæn
Heilagi andi, þú ert til staðar þar sem fólk mætist, á götum og torgum, í gleði og sorg. Hjálpaðu okkur að gera borgir og bæi að öruggum stöðum fyrir alla. Gefðu að plöntur, tré og von grói og blómstri þar sem við búum. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.