Markmið: 17

Samvinna um markmiðin

Open the SDG in Presentation mode
Framtíðin er óráðin. Engin veit hvernig heimurinn verður árið 2030. Eitt er þó ljóst, að allt sem er manngert er á okkar færi að breyta. Samfélagið er ekki grundvallað á náttúrulögmálum heldur er það mótað af fólkinu sem lifir og hrærist í því. Heimssagan birtir okkur ákvarðanir þeirra sem bjuggu hér á jörðinni á undan okkur og á sama hátt mun framtíðin litast af þeim ákvörðunum sem við tökum í dag.

Sautjánda Heimsmarkmiðið snýst um það hvernig við ætlum að vinna saman að því að ná öllum hinum markmiðunum. Heimsmarkmiðin eru víðtæk og framsækin og krefjast þess að allt samfélagið vinni að þeim saman. Ísland þarf að taka ábyrgð líkt og öll önnur ríki heims. Almennir borgarar, þú og ég, trúarhópar og félagasamtök þurfa að taka málin í sínar hendur. Fyrirtæki, bæði stór og smá, þurfa að skoða hvernig þau geta lagt sitt af mörkum. Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og aðrar alþjóðlegar stofnanir þurfa að taka ábyrgð. Áhrifamestu ríki heims, alþjóðafyrirtæki og aðrir aðilar sem hafa yfir miklum auðlindum og fjármagni að ráða þurfa að gera það að sínu markmiði að allir, líka fátækustu ríki jarðar, fái að upplifa það að við náum Heimsmarkmiðunum. Ef við ætlum að gera miklar breytingar þurfum við að vinna saman. Það er hægt að flytja fjöll, við þurfum bara að hefjast handa við að bera steina og enginn getur borið alla byrðina einn.

Trúarlegar vangaveltur

Biblían gefur okkur góða mynd af því hvað einkenni gott samfélag. Fyrst og fremst felur það í sér að réttlæti og friður ríki, að þau sem í dag eru utangarðs fái að tilheyra samfélaginu, og að þeim sem lifi við erfiðar aðstæður, t.d. ekkjum, munaðarleysingjum og innflytjendum sé mætt af virðingu og umhyggju (5. Mósebók 10.17-19).

Í fyrsta lagi eru það stjórnvöld sem bera ábyrgð á að ná þessu marki. Góður kóngur vinnur að réttlæti og hugar að þeim verst settu í samfélaginu (Davíðssálmur 72.4). Þar að auki ber sérhver borgari samfélagslega ábyrgð. Sýn Biblíunnar á manneskjuna og samfélagið staðfestir að það er sannarlega hlutverk okkar allra að vinna að því sem er rétt og gott fyrir samfélagið. „Þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð“ (Míka 6.8).

Þetta getur átt sér stað ef við treystum okkur til sleppa flokkadráttum og fordómum, ef við erum viljug til að starfa með öllum, jafnvel þeim sem við erum yfirleitt ósammála. Líkt og spámaðurinn Jeremía hvatti gyðingana sem höfðu verið hernumdir og fluttir til Babýlon til að vera góðir borgarar og vinna að velferð nýja samfélagsins þurfum við að hætta að horfa á það sem aðgreinir okkur og vera tilbúin að vinna með öllum íbúum jarðar að þessu stóra verkefni. „Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill“ (Jeremía 29.7).

Spurningar

  • Hvaða ábyrgð ber Ísland á því að það takist að uppfylla Heimsmarkmiðin í fátækari löndum?

Áskorun

Hvaða samtök og aðila gætuð þið eða kirkjan ykkar farið í samstarf við til að reyna að ná að uppfylla Heimsmarkmiðin? Hvert af þeim markmiðum sem hér hefur verið fjallað um gætuð þið keppt að ná? Og hvernig væri þá framlag ykkar til þess? Hvernig er hægt að hjálpa kristnu fólki að sjá að þetta er hluti af köllun okkar?

Bæn

Guð, þú sem ert móðir okkar og faðir, þú skapaðir okkur fyrir hvort annað, hjálpaðu okkur að sjá að við erum systkini. Fyrirgef okkur þegar við gleymum því og tendraðu systkinakærleikann í hjörtum okkar á ný. Gefðu að við getum gengið hönd í hönd mót bjartari framtíð. Tilkomi þitt ríki, láttu þitt ríki umvefja okkur. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.