Inngangur þýðanda

Hér kemur út á íslensku bók sem hugsuð er sem leiðarvísir fyrir kirkjur sem vilja taka þátt í því að vinna að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Bókin er stutt og einföld en nær að útskýra hvert markmið og rökstyðja hvernig hvert og eitt þeirra tengist trúarlegri köllun kristins fólks til að elska náungann og huga að velferð samfélagsins.

Nýverið tók ég þátt í samráðsfundi Grænna kirkna í Evrópu þar sem Heimsmarkmiðin bar á góma. Í hópnum var embættismaður sem hefur lengi starfað að umhverfismálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það var ljóst að hann var ekki hrifinn af Heimsmarkmiðunum. Hann sagðist óttast að þau dreifðu athygli okkar og drægju áhersluna frá stóra vandanum – að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Niðurstaða umræðnanna var sú að Heimsmarkmiðin væru nauðsynlegt verkfæri í glímunni við loftslagsbreytingar því að þau halda á lofti manngildi, mannréttindum og réttlæti. Til eru tæknilausnir sem gætu dregið verulega úr hlýnun jarðar en langtíma áhrif þeirra á líf og heilsu jarðarbúa eru óþekkt, eins gætu ríkustu þjóðir heims farið í aðgerðir sem tryggja aðeins öryggi og heilsu íbúa sinna en hundsa fátækustu og verst settu ríki jarðar. Heimsmarkmiðin eiga að tryggja að við föllum hvorki í gildru eiginhagsmunahyggju eða skeytingarleysis gagnvart neyð náungans. Það eitt og sér sýnir okkur hvað kjarni þeirra rímar vel við líf og boðun meistarans frá Nasaret.

Heimsmarkmiðin eru flestum kunn, þau hanga á veggjum í flestum grunnskólum landsins og hjá mörgum stofnunum og fyrirtækjum. Þau tóku við af Þúsaldarmarkmiðunum sem leiðarvísir fyrir heimssamfélagið til að stefna að betri framtíð. Heimsmarkmiðin eru framsæknari og viðameiri en Þúsaldarmarkmiðin, enda er öllum ljóst að við þurfum að bregðast við af krafti til að ná að hægja á afleiðingum loftslagsbreytinga. Vonin er að fyrir árið 2030 munum við ná öllum 17 markmiðunum. Til þess að við náum því þurfa allir að vinna saman að sama marki, þar eru kirkjan og kristin samfélög ekki undanskilin.

Ég vona að þessi bók kveiki áhuga og vilja hjá kirkjum á Íslandi til að taka þátt í að vinna að sjálfbærri og réttlátri framtíð. Tvö vers hafa verið mér hugleikin við þýðingarvinnuna og ég sendi þau hér yfir til ykkar í von um að þau geti eflt von og trú frammi fyrir þessu stóra verkefni.

Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika. – Fyrsta Jóhannesarbréf 3,18.

Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp. – Galatabréfið 6.9.

Sindri Geir Óskarsson.