Markmið: 9

Nýsköpun og uppbygging

Open the SDG in Presentation mode
Nýsköpun, uppbygging og iðnþróun eru hlutir sem hafa verið nauðsynlegir fyrir þróun samfélags okkar. Níunda markmiðið snýst töluvert um iðnþróun þrátt fyrir að orðið komi ekki fyrir í titlinum. Í markmiðinu segir að byggja þurfi upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnþróun og vinna að nýsköpun.

Innviðir eru þær grundvallarstoðir sem þurfa að vera til staðar svo að samfélagið geti dafnað. Vegir, flugvellir, vatnsveitukerfi, fráveitukerfi, raforkukerfi og farsímakerfi eru inniviðir sem samfélag okkar gæti ekki verið án. Við tengjum nýsköpun gjarnan við uppfinningar, að eitthvað nýtt verði til, en hugtakið felur meira í sér. Nýsköpun snýst nefnilega líka um að vinna að samfélagsbreytingum. Dæmi um það eru þegar Thomas Edison fann upp ljósaperuna, eða þegar internetið varð til og heimurinn gjörbreyttist. Til að uppfinningar leiði af sér nýsköpun og breytingar þarf samfélagið að styðja við að það sé mögulegt.

Mörg fátækt lönd þarfnast iðnaðar og innviða og þau munu ekki ná þróun nema að þetta tvennt komi til. Eitt af stóru vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir er að iðnaður og innviðir krefjast enn mikils jarðefnaeldsneytis. Heimssamfélagið stendur frammi fyrir því stóra verkefni að tryggja fátækum löndum tækifæri til að þróast á sjálfbæran hátt án þess að skaða náttúruna enn frekar. Til þess þörfnumst við nýsköpunar.

Trúarlegar vangaveltur

Í Biblíunni er ekki aðeins litið á sköpunina sem atburð við upphaf tímans, hún er lifandi ferli sem á sér enn stað. Lofsöngvarnir í Davíðssálmunum lýsa því í nútíð hvernig Guð skapar lífið, tilveruna og hvern nýjan dag sem við tökum á móti. Guð er sífellt að móta, skapa og endurnýja allt sem er. „Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til og þú endurnýjar ásjónu jarðar“ (Sálmur 104.30).

Tíminn stendur aldrei í stað. Bæði sem einstaklingar og þátttakendur í samfélagi upplifum við að allt hefur sinn tíma, að breytingar og þróun lita allt okkar líf. Það er ekki hægt að stöðva tímann, eða fara aftur til þess sem var.

Sá sem plægir akur þarf að beina sjónum sínum fram á við segir Jesús (Lúkas 9.62). Að plægja felur í sér að við undirbúum jarðveginn fyrir vöxt og framtíð. Margar dæmisögur Jesú benda okkur á það sama. Sagan af sinnepsfræinu (mustarðskorninu) sem verður að stóru tré undirstrikar kraftinn sem býr í einu litlu fræi (Matteus 13.31-32), hér á Íslandi bendir orðtakið „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“ á sama sannleik. Trúin gefur okkur von um að líf okkar og verk skipt máli í þeirri vinnu að byggja betri framtíð, að við getum stuðlað að réttlæti og friði.

Nýsköpun er það sama og endurnýjun. Allt sem Guð skapar felur í sér kraft til endurnýjunar og umbreytingar. Sem samverkafólk Guðs eigum við hlutdeild í þessum krafti, við erum öll kölluð til að vinna að endurnýjun (Rómverjabréfið 12.2) í eigin lífi og í samfélaginu sem við tilheyrum.

Spurningar

  • Veistu um dæmi þess að endurnýjun hafi leitt af sér jákvæða umbreytingu fyrir samfélag? Hvað einkennir slíka endurnýjun?
  • Hvernig mynduð þið lýsa góðum og sjálfbærum innviðum?

Áskorun

Heimurinn hefur þróast fyrir tilstuðlan lítilla og stórra uppfinninga sem hafa komið hvaðanæfa að. Átt þú einhverjar hugmyndir sem gætu leyst vandamál eða gert samfélagið betra? Veistu um einhverja sem vinna að nýsköpun sem geta hjálpað okkur að gera samfélagið sjálfbært?

Bæn

Helgi andi, veittu okkur innblástur svo að við getum fundið leiðir til að láta hæfileika okkar og hugmyndir gagnast samfélaginu. Hjálpaðu okkur að byggja brýr og brjóta niður múra svo að við mannfólkið getum sameinast um að hlúa hvert að öðru og sköpunarverkinu öllu. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.