Markmið: 12

Ábyrg neysla og framleiðsla

Open the SDG in Presentation mode
Yfirdráttardagur jarðar eða „Earth Overshoot day,“ líkt og hann heitir á ensku er sá dagur þegar mannkyn hefur notað þær auðlindir sem jörðin hefur getu til að endurnýja á einu ári. Dagurinn mælist sífellt fyrr á árinu og árið 2019 var mannkyn komið í skuld við náttúruna og plánetuna eftir 29. júlí. Tólfta Heimsmarkmiðið snýst um það hvernig við getum framleitt og nýtt vörur á þá vegu að það verði enn til auðlindir fyrir komandi kynslóðir. Við þurfum öll að hjálpast að við að ná því marki.

Vörur sem við kaupum eru hluti af alþjóðlegum markaði þar sem manneskjur og umhverfið verða gjarnan fyrir skaða í framleiðsluferlinu. Þegar við kaupum stuttermabol hefur einhver ræktað, tínt og hreinsað bómull, síðan er bómullin ofin í verksmiðju og hún notuð í efni sem því næst er sniðið í bol. Bolurinn þarf svo að komast í verslun, gjarnan hinum megin á hnettinum. Í þessu ferli þarf að hugsa um sjálfbærni á öllum stigum framleiðslunnar ef við ætlum að bæta umgengni okkar við auðlindir jarðar. Ef við sem neytendur ákveðum að velja vörur sem endast lengi og eru framleiddar á ábyrgan hátt erum við að taka skref í áttina að því að ná þessu markmiði.

Auðvitað geta neytendur ekki borið alla ábyrgð á því að framleiðslukeðjan sé sjálfbær. Stjórnvöld og fyrirtæki þurfa að stuðla að því að neytendur geti haft val um að velja vörur út frá umhverfissjónarmiðum. Framleiðslufyrirtæki þurfa að standa undir kröfum um sjálfbærni og úrgangur frá slíkum fyrirtækjum þarf að fá rétta meðhöndlun. Í raun og veru þarf að ganga lengra en svo að fólk hafi möguleika á að kaupa umhverfisvænar vörur, allar vörur þurfa að vera sjálfbærar.

Trúarlegar vangaveltur

Þegar Guð skapaði mannkyn gaf hann okkur það verkefni að gera jörðina okkur undirgefna og „ríkja yfir“ fiskum, fuglum og dýrum (1. Mósebók 1.28). Stundum eru þessi orð túlkuð sem guðleg réttlæting á að við arðrænum jörðina og auðlindir hennar. Það er galin túlkun þar sem þessum yfirráðum eru sett skýr mörk og þeim fylgir ábyrgð.

Í sögunni um Edensgarðinn segir að Guð hafi sett Adam í garðinn til „yrkja hann og gæta hans“ (1. Mósebók 2.15). Að vera sköpuð í mynd Guðs þýðir að við eigum í sérstöku sambandi við Guð. Guð talar til manneskjunnar og gefur henni það hlutverk að hlúa að sköpunarverkinu. Við göngum inn í það hlutverk þegar við lifum af ábyrgð og sýnum ráðsmennsku í verki.

Hinsvegar er mjög auðvelt fyrir okkur mannfólkið að vera sjálfhverf og óábyrg. Það sýndi sig strax í Edensgarðinum. Álíka sögur finnast víða í Biblíunni, til dæmis sagan sem Jesús sagði um ríka bóndann (Lúkas 12.13-21) sem trúði að ríkidæmi og neysla væri leiðin að góðu lífi. En þannig er það ekki, Jesús sagði: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“

Spurningar

  • Þegar Ísraelsmenn fengu að borða manna, brauð af himnum, í eyðimörkinni var þeim sagt að safna saman eins miklu og þörf væri á til að mæta þörfum dagsins (2. Mósebók 16.15-18). Getur sú saga kennt okkur eitthvað um ábyrga neyslu?
  • Ræðið hvað ábyrg framleiðsla þýðir.

Áskorun

Er eitthvað sem þið getið gert til að hjálpa samfélaginu ykkar að verða sjálfbært í neyslu?

Bæn

Drottinn sem gætir okkar, gefðu að okkur skorti ekkert og kenndu okkur að sjá hvað við eigum. Hjálpaðu okkur að bera virðingu fyrir auðlindum, endurnýta og gefa gömlum hlutum nýtt líf. Takk fyrir allar þínar gjafir. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.