Aðfaraorð

Guro Almås og Anne Marte Skaland, ritstýrur Heimsmarkmiðabókarinnar. 

Viljinn til að vinna að betri heimi er meðal þess dýrmætasta sem við búum yfir. Viljinn sem við sjáum holdgerast í friðarsinnum í Kabúl, baráttufólki fyrir mannréttindum í Kaíró og í umhverfissinnum á Kópaskeri. Viljinn sem býr í fólkinu sem er tilbúið að fórna öllu fyrir framtíð annarra. Viljinn sem býr í okkur „hversdagsaðgerðasinnunum“ sem reynum okkar besta í dagsins önn. Stundum missum við móðinn og viljum gefast upp, það getur verið mikilvægt að taka hlé og anda djúpt áður en við reisum okkur upp og reynum aftur. Viljinn knýr okkur áfram.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna standa fyrir gömul gildi og ný. Vinnan að friði, náttúruvernd og réttlæti er langt því frá ný af nálinni. Það sem er nýtt og spennandi við Heimsmarkmiðin er að aldrei áður hafa öll ríki heims sammælst um svona metnaðarfull og víðtæk markmið. Þrátt fyrir að vinnan fyrir betri heimi hafi staðið lengi gefa þessi nýju markmið aukinn drifkraft. Þau gefa okkur tækifæri sem við þurfum að grípa. Systkini okkar sem búa við ranglæti og fátækt eiga það inni hjá okkur. Við skuldum börnunum sem munu erfa jörðina að hún verði lífvænlegt og gott heimili.

Til að geta náð Heimsmarkmiðunum þarf samstillt átak margra sem vilja vinna að þeim. Það er nefnilega summan af lífi, starfi og aðgerðum okkar allra sem ræður því hver útkoman verður. Sem einstaklingar getum við verið meðvitaðir um að velja umhverfisvæna kosti í hversdeginum, við getum keypt föt með réttlætisvottun eða gefið okkur tíma til að týna rusl í fjörunni. En til að breyta sjálfum kerfunum sem valda sundrungu, ranglæti og náttúrueyðingu þurfum við að standa saman. Við þurfum að skipuleggja okkur og efla til samstarfs milli samfélagsins, stofnana og alþjóðlegra samtaka.

Í þessu sameiginlega átaki samfélagsins alls hafa kirkjur og kristin samtök líka hlutverk. Hér á þessum síðum bjóðum við ykkur að ígrunda hvað Biblían og kristin trú hefur að segja um Heimsmarkmiðin. Viðfangsefnið er ekki nýtt fyrir kirkjuna, en Heimsmarkmiðin gefa okkur ný sjónarhorn, nýja samstarfsaðila og ný tækifæri til að ávarpa ástandið. Kirkjur og kristin samtök mynda net sem nær til samfélaga um allan heim. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort við þorum að nýta tækifærin sem við höfum til að vinna að bjartari framtíð? Við vonum að Heimsmarkmiðabókin hjálpi okkur að gera háleit markmið að raunverulegum aðgerðum, að hún styðji okkur í að sjá hvernig litlu hlutirnir í hversdeginum skipta raunverulega máli í stóra samhenginu. Í þessari bók höfum við ofið saman staðreyndum, biblíulegum ígrundunum, spurningum og bænum á þá vegu að hún getur komið að gagni í barna- og unglingastarfi, við prédikunarundirbúning, í biblíuleshópum og fermingarfræðslu svo eitthvað sé nefnt.. 

Við sem búum yfir viljanum til að vinna að betri heimi erum systkini og verðum að standa saman. Þrátt fyrir að við þekkjumst ekki erum við öll að vinna að sama marki. Enginn veit nákvæmlega hvað þarf til svo að við náum að uppfylla Heimsmarkmiðin. Sum þeirra snúast um fjármál, önnur um erfið átök á stjórnmálasviðinu, enn önnur um breytta hegðun og venjur. Við eigum ekki svör við því hvað þetta mun kosta okkur margar vinnustundir, hvað við þurfum að skrifa margar greina eða skipuleggja marga fundi. Við vitum það ekki. En við vitum samt að því fleiri sem við erum því sterkari erum við – og því meiri verða líkurnar á að okkur takist þetta!