Trúarlegar vangaveltur
Orðin „skóli“ og „menntun“ finnum við ekki í Biblíunni. Hinsvegar er oft talað um það að læra, um leiðsögn og að vaxa að visku. Orðskviði Salómons í Biblíunni má lesa sem kennslubók í skóla lífsins. Í upphafi þeirra segir að bókin sé ætluð: „til þess að menn nemi visku og leiðsögn og læri að meta orð skynseminnar, til þess að menn hljóti viturlega leiðsögn, réttsýni, sanngirni og heiðarleika, til þess að þeir verði óreyndum til ráðgjafar og veiti unglingum þekkingu og forsjálni, hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni þiggur hollráð“ (Orðskviðirnir 1.1-5). Þetta er heilsteyptur grunnur að góðri menntun og lærdómi í gegnum lífið. Hér náum við að halda saman þekkingu og skynsemi, siðferðislegu innsæi og réttri breytni. Út frá sjónarhóli Orðskviðanna er menntun þjálfun í því að gera hið rétta í þágu samfélagsins. Út frá sýn Biblíunnar á gildi manneskjunnar á allt fólk rétt á menntun, óháð kyni, félagsstöðu, efnahag eða uppruna. Að meina barni um menntun felur í sér að manngildi þess sé afneitað og barnið dæmt til lífs í fátækt og útilokun. Við erum öll sköpuð í mynd Guðs og treyst fyrir hæfileikum sem þurfa að fá tækifæri til að dafna. Þannig verðum við góðir borgarar, þannig byggjum við upp sjálfbært samfélag.Spurningar
- Hvað hefur Biblían að segja um það hvað felist í góðri menntun?
- Ræðið það sjónarmið að þegar barni sé meinað að mennta sig sé verið að útiloka það frá gæðum samfélagsins.
Áskorun
Hvernig getið þið lagt ykkar að mörkum til að fleiri kynnist Heimsmarkmiðunum? Getið þið hjálpað til við að fræða fólk um Heimsmarkmiðin í kirkjunni, skóla, vinnustað eða í samfélaginu ykkar?
Bæn
Guð, þú sem ert uppspretta allrar visku, hjálpaðu okkur að deila því sem við vitum. Gefðu að öll börn fái að leika og læra, opnaðu augu okkar og hjarta svo að við finnum rétta veginn í þessum magnaða en stundum ógnvekjandi heimi. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.