Trúarlegar vangaveltur
„Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu. Þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór... Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma“ (Davíðssálmur 104.25-27). Þannig lýsir Biblían lífinu í vatni. Fyrst sem fjölbreyttu lífríki sem sé stærra og meira en við getum mögulega gert okkur í hugarlund. Næst sem viðfangi umhyggju Guðs. Guð er lífgjafi sem nærir sköpunarverkið og líkt og smáblómið í þjóðsöngnum okkar þá þekkir náttúran skapara sinn og tilbiður hann. Lífið sjálft er nefnilega meira en bara við mannfólkið, líf okkar er ofið inn í samhengi sem er svo miklu stærra. Hugsanlega er það tíðarandinn en nú virðist sem mörgum finnist það lítils virði sem þeir þekki ekki. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því sem við sjáum ekki. Kannski það sé ástæða þess að við höfum fyllt hafið með svo miklu rusli að lífið í sjónum er í hættu. Eða kannski skiptir hafið okkur aðeins máli upp að því marki sem það gagnast okkur, þá getum við bara tæmt það og nýtt auðlindir þess eins hratt og við mögulega getum áður en okkar tími rennur út. Trúin á sköpunarmátt Guðs krefst þess að allt líf sé verðmætt og hafi gildi í sjálfu sér. Í því ljósi þarf sjálfbær notkun að haldast í hendur við sjálfbæra umgengni, það á sérstaklega við um líf í vatni.Spurningar
- Versin úr sálmi 104 hvetja okkur til að sýna lífi í vatni virðingu. Af hverju ætli þessi áhersla á virðingu fyrir náttúrunni fái ekki meiri athygli í starfi og boðun kirkna?
- Hvernig geta kirkjur og samfélög sýnt í verki að þau virði og vilji vernda lífi í vatni?
Áskorun
Hvernig getið þið breytt neyslu og venjum til að draga úr plastmengun í hafinu? Þekkið þið til fyrirtækja sem þið gætuð hvatt til að leggja sitt af mörkum til að draga úr plastmengun í hafinu?
Bæn
Guð, þú sem þekkir leyndardóma djúpsins, fyrirgef okkur eyðilegginguna og mengunina. Gefðu okkur visku og ný tækifæri til að sýna lífinu í vatni virðingu. Frelsaðu hafið undan þeim erfiðleikum sem við höfum valdið og hjálpaðu okkur að bæta skaðann. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.