Markmið: 15

Líf á landi

Open the SDG in Presentation mode
Jörðin er litrík og lífríki hennar fjölbreytt. Tilgátur vísindamanna um hve margar tegundir lífvera sé að finna á jörðinni eru allt frá tveim milljónum til þúsund milljarðar! Það er augljóst að við mannfólkið deilum þessum heimkynnum með aragrúa dýra, plantna og annarra lífvera. Líffræðileg fjölbreytni og vistkerfi jarðar eru grundvöllur lífs á plánetunni. Við treystum á hringrásarkerfi sem gefa okkur súrefni og hreint vatn, við þurfum að sækja alla okkar næringu til jarðarinnar.

Fimmtánda Heimsmarkmiðið snýst um að gæta að þessu mikla ríkidæmi. Við þurfum að temja okkur lífsstíl og byggja upp samfélög sem ógna hvorki líffræðilegri fjölbreytni né eyða vistkerfum. Þar eigum við því miður langt í land.

Við notum meira af auðlindum jarðar en svo að við getum talist sjálfbær í bráð. Það að við fjarlægjum lítinn hluta ósnortinnar náttúru, til dæmis til að leggja veg, þarf ekki að hafa stórkostleg áhrif eitt og sér. En þegar sífellt fleiri hlutar eru fjarlægðir, færðir, eða þeim breytt, eru samlegðaráhrifin gífurleg. Á fimm sekúndna fresti hverfa svæði á stærð við fótboltavöll í regnskógum heims. Það þýðir að við höggvum 12 fótboltavelli á mínútu, 720 fótboltavelli á klukkustund og 17.280 velli á sólarhring. Skógeyðing veldur stjórtjóni. Hún skaðar líffræðilega fjölbreytni, samfélögin sem búa í regnskógum heimsins og loftslagið. Það að stöðva skógeyðingu og rækta upp skóglendi sem hefur tapast er mikilvægur þáttur þessa markmiðs.

Trúarlegar vangaveltur

„Þú lést lindir spretta upp í dölunum, þær streyma milli fjallanna, þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þar þorsta sinn. Við þær búa fuglar himinsins, kvaka milli laufgaðra greina. Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum og af ávexti verka þinna mettast jörðin.“ (Davíðssálmur 104.10-13). Biblían heldur engu aftur þegar hún lýsir mikilfengleik sköpunarverksins. Við sjáum sama stef endurtaka sig, lofsöng til Guðs sem sér fyrir öllu lífi, líka fuglum og dýrum.

Í upprunalega gríska textanum í Nýja testamentinu er orðið oikoumene notað um allan hinn byggða heim, heimsbyggðina (til dæmis í Lúkasarguðspjalli 2.1). Orðið kemur af rótinni oikos (hús/heimili) og vísar til heimilislífsins á jörðinni og allra sem tilheyra því - mannfólks, dýra og plantna. Á mörgum tungumálum eru orðin efnahagur (e. economy) og vistfæði (e. ecology) dregin af þessu gamla gríska orði og minna okkur á að allt tengist, við erum öll hluti af sömu heild, hluti af sama heimili.

Nú á okkar tímum á fjölbreytni og jafnvægi náttúrunnar undir högg að sækja. „Við vitum að öll sköpunin stynur líka,“ segir Páll postuli, hún þráir að verða frjáls (Rómverjabréfið 8. 21-23). Það að standa vörð um sköpunarverkið merkir að við tökum undir lofsönginn til Guðs og játum að „Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,“ (Davíðssálmur 24.1). Eins þurfum við að viðurkenna að við tilheyrum öll sama heimili og eigum skyldleika við allt sem lifir, það getur verið okkur hvatning til að þjóna og gæta að sköpunarverkinu.

Spurningar

  • Orðið húsráðandi er notað um þá sem bera ábyrgð á heimilislífinu. Hvað felst í því að við mannfólkið eigum að bera ábyrgð á jörðinni, sameiginlegu heimili alls lífs sem vitað er um í alheiminum?
  • Hvaða trúarlega og andlega merking getur falist í því að draga fram líffræðilegan skyldleika okkar mannfólksins við allt líf á jörðinni?

Áskorun

Að stuðla að landvernd er sístætt verkefni fyrir stjórnmálafólk og almenning. Vitið þið um dæmi þess að náttúruvernd lúti í lægra haldi fyrir hagsmunum annarra? Hvað getum við gert til að verða flinkari í því að vernda náttúruna?

Bæn

Guð sem gefur lífið, gefðu að við getum undrast og glaðst yfir náttúrunni. Hjálpaðu okkur að stíga létt til jarðar á lífsgöngunni svo að vistspor okkar verði ekki of stórt. Takk fyrir að við fáum að vera hluti af heildinni. Kenndu okkur að finna okkar stað í þessum fallega heimi. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.