Markmið: 6

Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Open the SDG in Presentation mode
Öll stærstu menningarsamfélög mannkynssögunnar urðu til í nágrenni við rennandi vatn. Mesópótamía hafði árnar Efrat og Tígris, í Egyptalandi var það áin Níl. Í gegnum aldirnar hefur vatn verið grundvölur þess að einstaklingar og samfélög hafi það gott. Vatn er okkur lífsnauðsynlegt og þegar við höfum ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni aukast líkurnar á hættulegum sjúkdómum til muna. Því er það virkilega alvarlegt og sláandi að einn af hverjum níu íbúum jarðar hefur ekki aðgang að hreinu vatni.

Þriðjungur mannkyns hefur ekki aðgang að góðri hreinlætisaðstöðu. Til að hægt sé að segja að hreinlætisaðstaða sé góð og örugg þarf salernið að vera þannig að húð fólks komist ekki í snertingu við úrgang og að mögulegt sé að þvo sér um hendurnar eftir salernisferð. Þar að auki þarf aðstaðan að vera lokuð og ekki hættulegt að nýta hana. Víða eru konur í sérstakri hættu á að verða fyrir árás og nauðgun ef þær fara á salernið eftir myrkur. Í fátækari löndum deyja margir vegna sjúkdóma sem má rekja til slæmrar hreinlætisaðstöðu. Þau deyja úr sjúkdómum sem bæði er hægt að meðhöndla og fyrirbyggja.

Í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna segir að við ætlum að tryggja öllum aðgang að hreinu vatni og góðri hreinlætisaðstöðu fyrir árið 2030. Góðu fréttirnar eru að það er til nóg vatn handa öllum, vandamálið er hvernig við deilum vatninu og tryggjum að það haldist hreint. Það er nokkuð einfalt að reisa örugg og hreinleg salerni, áskorunin felst í að kenna rétta fólkinu að gera það. Það að ná þessu markmiði er grunnurinn að því að ná mörgum hinna en þar að auki snýst þetta markmið um sjálfsvirðingu fólks. Allir þurfa aðgang að góðri hreinlætisaðstöðu og hreinu vatni.

Trúarlegar vangaveltur

Miklir þurrkar settu stundum strik í reikninginn fyrir fólkið sem Biblían segir frá. Sögur Biblíunnar gerast fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem fólk er sannarlega meðvitað um hve mikilvægt það er að hafa aðgang að vatni til að halda lífi. Vatn ef gjöf af himnum ofan, bæði í efnislegri og andlegri merkingu. Sagan um Edengarðin segir frá því að jörðin hafi verið dauð og auð áður en Guð lét rigna á jörðina. Þá hafi Guð skapað uppsprettu sem vökvaði alla jörðina. Þar með varð grundvöllur til lífs á jörðinni og Guð „mótaði manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera“ (1. Mósebók 2.4-7). Síðar í frásögninni heyrum við af ánni sem vökvaði allan garðinn. Áin kvíslaðist í fjórar áttir til áminningar um að vatnið sé ekki eitthvað sem hægt er að einoka, allir eiga að hafa aðgang að því.

Á þurrkatímum reyna þeir ríku og valdamiklu að tryggja sér yfirráð yfir brunnum og uppsprettum án þess að velta fyrir sér þörfum annarra. Það sjáum við líka í Biblíunni. Spámenn Gamla testamentisins bregðast við því ranglæti með því að boða framtíð þar sem allir munu fá að drekka og svala þorsta sínum (Jesaja 55.1). Hreint vatn er ein af gjöfum Guðs sem á að koma öllum til góða, það er rangt að gera það að markaðsvöru sem aðeins fáir hafa aðgang að.

Spurningar

  • Hvernig getum við rökstutt rétt fólks til aðgangs að hreinu vatni út frá siðferðilegum og trúarlegum forsendum.

Áskorun

Að tryggja fólki aðgang að hreinu vatni og góðri hreinlætisaðstöðu er mikilvægt fyrir þróun samfélaga. Ef stjórnmálafólk finnur fyrir þrýstingi heima fyrir til að ræða ákveðin málefni er líklegra að það láti af því verða á alþjóðavettvangi. Getum við gert eitthvað til að auka umræðu um þetta Heimsmarkmið?

Bæn

Jesús Kristur sem gafst okkur lifandi vatn: Gefðu að okkur þyrsti í réttlæti og svalaðu þorsta okkar. Kenndu okkur að skapa framtíð þar sem allir geta lifað verðugu lífi. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.