Trúarlegar vangaveltur
„Glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt geð tærir beinin.“ (Orðskviðirnir 17.22). Þessi orð benda okkur á að þegar Biblían talar um heilsu er áherslan gjarnan á vellíðan og góð tengsl. Biblíulega hugtakið shalom, sem er gjarnan þýtt „friður“, felur líka í sér þá merkingu að vera í jafnvægi og hafa það gott. Í skilgreiningu Alkirkjuráðsins segir að heilsa sé gagnvirkt ástand vellíðunar sem eigi bæði við um einstaklinga og samfélagið í heild sinni. Það sé ástand þar sem líkamleg, andleg, sálræn, efnahagsleg og félagsleg vellíðan er ráðandi í samskiptum okkur við umheiminn og Guð. Þegar Jesús læknar sjúka liggur þessi heildræni skilningur á heilsu til grundvallar. Manneskjurnar eru frelsaðar, ekki aðeins frá líkamlegum sársauka, heldur einnig frá útilokun, jaðarsetningu og skömm. Í sögunum af kraftaverkum Jesú heyrum við oftast af fólki sem hafði háð langa glímu við veikindi sín og einangrast frá samfélaginu. Jesús staðfestir virði þeirra og manngildi, þau upplifðu upprisu til nýs lífs og endurheimtu tengsl sín við annað fólk. Í þessu ljósi snýst heilsa og vellíðan um að tryggja réttlátan og jafnan aðgang að grundvallar heilbrigðisþjónustu, sérstaklega fyrir þau í neðstu þrepum samfélagsins. Ef við fylgjum fordæmi Jesú (Jóhannes 9) trúum við að það leiði af sér bætta heilsu að valdefla fólk og styðja það í að takast á við erfiðleika. Heilsan þarf ekki að vera fullkomin, en nægjanlega góð til lifa merkingarbæru lífi.Spurningar
- Ræðið það sjónarmið að í Biblíunni sé heilsa heildrænt fyrirbæri sem snúist sérstaklega um tengsl.
- Í alþjóðlegu samstarfi kirkna er réttur til heilbrigðis (e. health justice) mikilvægt viðfangsefni. Skiptir það máli í okkar samfélagi?
Áskorun
Fólk á flótta glímir gjarnan við fjölbreytt vandamál sem fylgja því að hafa ekki fullnægjandi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Detta ykkur í hug fleiri hópar, jafnvel í ykkar samfélagi, sem standa einnig frammi fyrir vandamálum sem tengjast heilsu og vellíðan? Er eitthvað sem þið getið gert til að hjálpa við að bæta aðstæður þeirra?
Bæn
Heilagi andi, þú sem fyllir okkur lífi, við biðjum fyrir öllum sem lifa með verkjum og takast á við lífsógnandi sjúkdóma. Kenndu okkur að deila von, huggun og heilbrigðisþjónustu. Takk fyrir allt sem styrkir líf og heilsu. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.