Trúarlegar vangaveltur
Réttlæti og friður eru lykilhugtök í Biblíunni. Þau koma gjarnan fyrir í sömu frásögninni til áminningar um að það sé ekkert réttlæti án friðar og enginn friður án réttlætis. Þessi orð lýsa ástandi þar sem tengslin milli fólks eru lituð af umhyggju og opnu hjarta. „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“ (Davíðssálmur 85.11) Samkvæmt Biblíunni eru friður og réttlæti hluti af því hvernig Guð mætir og starfar í heiminum. „Náðugur er Drottinn og réttlátur og Guð vor er miskunnsamur“ (Davíðssálmur 116.5). Að skilningi Biblíunnar er réttlæti ekki lögfræðilegt hugtak sem snýst um sök og dóm. Öllu heldur er það ákall um að samfélagið standi vörð um manngildi allra og gefi ramma sem tryggi öllum gott og merkingarbært líf. Eins er friður meira en bara andstæða stríðs, hebreska orðið shalom felur í sér jafnvægi, velferð og fögnuð yfir góðum og traustum samböndum. Á þessum grunni byggir Páll postuli þau orð sín að réttlæti og friður sýni okkur Guðsríkið (Rómverjabréfið 14.17), ríkið sem Jesús færði nær okkur og trúin gefur okkur hlutdeild í. Á sama tíma eru þetta gildi sem við þurfum að vinna að í von um að við enda tímans munum við hafa náð takmarkinu. „En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr“ ( 2. Pétursbréf 3.13).Spurningar
- Hver er munurinn á skilningi Biblíunnar og samfélagsins nú á hugtökunum friður og réttlæti?
- Það er ekkert réttlæti án friðar og enginn friður án réttlætis. Er þetta rétt? Getið þið nefnt einhver dæmi úr samtímanum til að varpa ljósi á sannleiksgildi þessara orða?
Áskorun
Hafið þið hugmyndir um hluti sem hægt er að gera til að hjálpa og styðja við fólk sem verður fyrir ofbeldi í þínu samfélagi? Getum við á Íslandi gert eitthvað til að vinna gegn ofbeldi annarsstaðar í heiminum, hvort sem það er stríð, mannréttindabrot eða aðrar birtingarmyndir ofbeldis?
Bæn
Guð friðar, við biðjum fyrir öllum sem lifa við ofbeldi, að þau megi upplifa réttlæti og finna frið. Vaktu yfir hjörtum okkar og styrktu þau sem vinna að réttlæti í samfélaginu. Leiddu fætur okkar inn á veg friðar. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.