Markmið: 10

Aukinn jöfnuður

Open the SDG in Presentation mode
Það að sumir séu fátækir en aðrir ríkir er nokkuð sem börn benda hispurslaust á að sé ósanngjarnt og rangt. Kannski er okkur kennt að taka þessu sem eðlilegum hlut þegar við fullorðnumst. Það markmið að vinna að auknum jöfnuði var ekki hluti af þúsaldarmarkmiðunum. Nú þegar það er hluti af Heimsmarkmiðunum er það bæði vegna þess að ójöfnuður er vandamál í sjálfu sér, en einnig vegna þess að aukinn jöfnuður er mikilvægt skref í baráttunni gegn fátækt.

Þegar bilið milli ríkra og fátækra eykst getur það grafið undan traustinu sem þarf að ríkja milli þjóðar og stjórnvalda. Ójöfnuður hefur þannig neikvæð áhrif á sjálft lýðræðið. Óreiða og útlendingahatur geta einnig verið fylgifiskar ójöfnuðar, átök geta færst í aukana og aukin fátækt getur leitt af sér að náttúran sé nýtt á ósjálfbæran hátt.

Skattkerfið getur verið mikilvægt tæki til að stuðla að jöfnuði þegar því er markvisst beitt í þeim tilgangi. Þá eru þeir eignarmestu og tekjuhæstu skattlagðir umfram aðra. Eins er mikilvægt að í samfélaginu sé gott og réttlátt velferðarkerfi sem heldur utan um unga jafnt sem aldna og tryggir fólki menntun, heilbrigðisþjónustu, bætur og ellilífeyri. Í fátækum löndum er efnahagsvöxtur mikilvægur en þar er nauðsynlegt að beina einnig sjónum að réttindum verkafólks og gæta þess að fólk fái laun sem hægt sé að lifa af. Á heimssviðinu þarf aukið gagnsæi í efnahagsmálum svo hægt sé að skattleggja þau allra ríkustu og stærstu alþjóðafyrirtækin.

Hugmyndafræðilega vitum við hvað þarf að gera til að auka jöfnuð, en til að ná markinu þarf að vinna að stórum breytingum á mörgum sviðum samfélagsins. Eina spurningin sem skiptir máli er hvort viljinn til breytinga sé til staðar hjá almenningi og stjórnmálafólki.

Trúarlegar vangaveltur

Spámaðurinn Amos starfaði í Ísrael í kringum árið 750 fyrir Krist. Á þeim tíma ríkti nokkur velsæld í ríkinu vegna ýmissa hernaðarlegra sigra og efnahagslegrar velgengni. En góðærið gagnaðist ekki öllum, valdaelítan jók ríkidæmi sitt á kostnað fátækra. Amos lýsir lífi hinna ríku svo: „Þeir hvíla á legubekkjum úr fílabeini, teygja úr sér á hægindum sínum. Þeir gæða sér á lömbum úr hjörðinni og kálfum úr alistíunni.“ (Amos 6.4) En á sama tíma er okkur gert ljóst að þetta ríkidæmi hvíli á ranglæti og valdamisræmi, „þér sem kúgið hina umkomulausu, misþyrmið fátækum“ (Amos 4.1). Spámaðurinn ákærir hina ríku fyrir að svindla á fólki í viðskiptum og gera almúgann að skuldaþrælum (Amos 8.4-6).

Reynslan sýnir að aukin velmegun kyndir oft undir auknum ójöfnuði milli einstaklinga og hópa. Efnahagslegur ójöfnuður leiðir af sér félagslegan ójöfnuð þar sem fólk er dæmt út frá því hvað það á og hefur færi á að gera. Samkvæmt Amosi er velmegun sem ýtir undir ójöfnuð og valdamisræmi ekki sjálfbær, hún bíður dóms Guðs og mun valda hörmungum.

Á sama tíma boðar Amos annan möguleika, „Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munuð þér lifa!“, „eflið réttinn í borgarhliðinu.“ (Amos 5.14-15). Jöfnuður og jafnrétti krefst manngæsku, að við leitumst eftir að lifa þannig að við séum öll jöfn, en til að við séum sjálfbær þurfum við líka að gæta þess að vera réttlát. Það á ekki minnst við á efnahags- og stjórnmálasviðinu.

Spurningar

  • Hvaða vandamálum veldur ójöfnuður samfélagi sem stefnir að því að vera sjálfbært?
  • Spámennirnir í Gamla testamentinu gagnrýndu valdhafa samtímans fyrir að byggja ríkidæmi sitt á ranglæti og misnotkun. Er það vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag?

Áskorun

Vinnur einhver í þínu samfélagi að því að draga úr efnahagslegum ójöfnuði? Getur þú gert eitthvað til að styðja við það verkefni? Getur þú gert eitthvað til að auka umræðu um ójöfnuð í samfélaginu, á vinnustaðnum eða í skólanum þínum?

Bæn

Elsku Jesús, þú ferð ekki í manngreiningarálit, gerðu okkur líkari þér. Gefðu okkur visku til að vilja deila. Gefðu að réttlæti verði sterkara afl en græðgi í lífi okkar og gefðu okkur hugrekki til að mæta hvort öðru þrátt fyrir allt sem aðskilur okkur. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.