Markmið: 13

Aðgerðir í loftslagsmálum

Open the SDG in Presentation mode
Loftslagið á jörðu breytist sífellt og hefur alltaf gert, en aldrei eins hratt og kröftuglega og við upplifum þessa dagana. Losun gróðurhúsalofttegunda á borð við koltvísýring og metan valda því að andrúmsloftið hlýnar, það leiðir til þess að meðalhiti jarðar fer hækkandi og veðurfar verður öfgakenndara. Um allan heim upplifir fólk að þurrkar, flóð og óreiða í veðurfari sé algengari en var. Afleiðingarnar eru skelfilegar fyrir allt líf á jörðinni. Þurrkar leiða af sér uppskerubrest og vatnsskort, flóð og fellibylir eyðileggja heimkynni fólks og lífsviðurværi. Sífellt fleiri leggja á flótta þar sem vatnið er horfið og húsdýrin dauð. Loftslagsbreytingar eru ranglátar. Ríkustu lönd heims eiga sök á megninu af losun gróðurhúsalofttegunda, en þau fátækustu glíma við sárustu afleiðingarnar.

Í þrettánda Heimsmarkmiðinu segir að við ætlum að stoppa loftslagsbreytingar. Því miður sjáum við nú þegar afleiðingar þeirra, en það er enn tími til að hægja á þeim og draga úr umfangi skaðans. Til að koma í veg fyrir að framvinda mála fari á versta veg þurfum við að sjá til þess að meðalhiti lofthjúpsins hækki ekki meira en sem nemur 1,5°C. Við getum enn náð því marki, en þá þarf samstillt átak allrar heimsbyggðarinnar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2030. Ef við ætlum að ná því þurfum við öll að vinna saman, bæði sem einstaklingar og samfélög, í viðskiptalífinu og á stjórnmálasviðinu. Það er komið að því að allir taki af skarið og sýni ábyrgð.

Trúarlegar vangaveltur

Í heimi Biblíunnar eru náttúruöflin stundum persónugerð og birtast jafnvel sem hálf djöfullegur eyðingarkraftur. Lærisveinar Jesú óttuðust að vindurinn og öldurnar myndu sökkva þeim í djúpið (Matteus 8.23-27). Náttúran getur virst geðvond og illskeytt; þegar við mannfólkið stöndum frammi fyrir mætti hennar upplifum við smæð okkar og valdaleysi.

Vanmáttur okkar verður sérstaklega greinilegur og sár þegar fólk upplifir löng þurrkatímabil og uppskerubrest. Biblían segir frá loftslagsbreytingum í Egyptalandi, og frá Jósef sem tók pólitískar ákvarðanir til að undirbúa þjóðina og hjálpa þeim sem myndu líða vegna „sjö ára hungursneyðar“ (1. Mósebók 41). Þannig kom hann í veg fyrir að þjóðin myndi tortímast. Stjórnmálafólk í samtímanum stendur frammi fyrir því að taka ákvarðanir varðandi það hvernig við undirbúum okkur og styðjum við þau sem sem munu upplifa hörmungar vegna hamfarahlýnunar. Munurinn á stöðunni nú og áður er að loftslagsbreytingar samtímans hafa orðið til af mannavöldum. Við getum ekki kennt geðvondum náttúruöflum um stöðuna, við þurfum að bera hluta af ábyrgðinni og sýna ábyrgð í verki. Við þurfum að taka til hendinni og trúa því að Guð vaki yfir okkur og styðji okkur þegar við vinnum að því að skapa betri framtíð. Sami Guð og vakti yfir Nóa forðum daga þegar hann bjargaði öllum tegundum frá útrýmingu, Guð sem batt enda á flóðið mikla og setti regnbogann á himininn sem tákn um von og framtíð (1. Mósebók 9.11-17).

Spurningar

  • Hvernig getur trúin á Guð sem skapar hvatt okkur til að vinna að því að stöðva loftslagsbreytingar og undirbúa okkur undir afleiðingar þeirra?
  • Í Gamla testamentinu er regnboginn tákn um sáttmála milli Guðs og sköpunarverksins um að Guð muni ekki eyða sköpunarverkinu. Hefur þessi trú eitthvert gildi í dag?

Áskorun

Bæn

Guð, við sjáum að sköpunarverkið þitt sligast vegna framgöngu okkar. Fyrirgefðu okkur og hjálpaðu okkur að snúa við blaðinu, jafnvel þó það verði okkur dýrkeypt. Öll sköpunin þráir að jörðin lifi og sé heilbrigð. Styrktu okkur í voninni og baráttunni. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.