Markmið: 7

Sjálfbær orka

Open the SDG in Presentation mode
Ekkert gerist eða hreyfist án þess að orka skipti um form. Þegar við hreyfum okkur brennum við orku og til að byggja upp samfélög höfum við lært að beisla orku náttúrunnar. Við byggðum myllur við fossa og ár til að mala korn, við hituðum mat á eldi og nýttum vindinn til að sigla yfir höf. Orkulindir jarðar hafa skilað mörgum samfélögum þróun og velgengni. Hinsvegar eru þeir orkugjafar sem við notum mest verulega skaðlegir fyrir loftslagið og náttúruna. Því er svo mikilvægt að samfélög heims velji nú að nota hreina og sjálfbæra orku.

Heimsmarkmiðin gera ráð fyrir að allir eigi að hafa aðgang að hreinni orku á viðráðanlegu verði fyrir árið 2030. Alþjóða heilbrigðisstofnunin áætlar að þrír milljarðar manns eldi mat á opnum eldi eða í reykspúandi ofnum og að hátt í fjórar milljónir manns deyi árlega vegna heilsubrests sem rekja megi til þess að þau andi að sér of miklum reyk við slíkar aðstæður.

Ef við ætlum að ná þessu markmiði þarf samstillt átak alls samfélagsins. Við þurfum að ákveða að velja sjálfbæra orku, það þarf að sjá til þess að allir geti keypt hreint rafmagn á viðráðanlegu verði. Það ættu allir að eiga kost á að elda mat án þess að fylla lungun af skaðlegum reyk og að hafa birtu til að geta sinnt heimanáminu eftir sólarlag.

Trúarlegar vangaveltur

Í mörgum tungumálum á orðið „orka“ rót sína í gríska orðinu energeia (sbr. energy á ensku og energi á norsku). Á grísku þýðir orðið styrkur eða kraftur, það sem þarf til svo að hægt sé að vinna eitthvert verk. Þannig er orðið líka notað í Nýja testamentinu um mátt Guðs sem gefur fólki styrk til að leysa þau verkefni sem þeim hafa verið falin (Kólossusbréfið 1.29).

Þetta er sjónarmið sem hollt er að velta fyrir sér í umræðu samtímans um orku og orkunotkun. Orka er nefnilega auðlind sem við þiggjum, ein af gjöfum náttúrunnar sem okkur hefur verið falið að varðveita og nýta fyrir hagsmuni heildarinnar. Við höfum sannarlega búið til tæknina til að mæla og beisla orku, en erum alltaf háð því að sólin skíni, vindurinn blási eða að úrkoma viðhaldi rennsli í ám. Við getum ekki búið til orku.

Jesus minnir okkur á að Guð „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5.45). Gjafir Guðs eru alltaf hreinar og sjálfbærar og okkur er sagt að þær eigi að þjóna öllum. Þannig hefur það ekki verið, við höfum ekki alltaf farið rétt með þessar gjafir. Orð Jesú geta veitt okkur innblástur til að vinna að samfélagsbreytingum sem tryggja að allir hafi jafnan aðgang að hreinni og sjálfbærri orku og þeim möguleikum sem orkan veitir til að bæta lífið.

Spurningar

  • Hvenær er orka hrein og sjálfbær?
  • Hvað þarf að gerast svo að við getum sagt að allir hafi jafnan aðgang að sjálfbærri orku?

Áskorun

Getið þið gert eitthvað til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í ykkar samfélagi eða fjölskyldu? Getið þið gert eitthvað til að hjálpa sveitarfélaginu ykkar að nýta sjálfbæra orku í meiri mæli?

Bæn

Guð, þú sem leyfir okkur að njóta orkunnar sem býr í sköpunarverkinu, dynjandi fossa og geisla sólarinnar sem gefa líf og yl, hjálpaðu okkur að nýta orku þeirra svo að hún komi öllum til góða. Kenndu okkur að fara vel með gjafir náttúrunnar. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.