Markmið: 8

Góð atvinna og hagvöxtur

Open the SDG in Presentation mode
Það er nauðsynlegt að til séu störf fyrir vinnufært fólk sem er heilbrigt og ekki í skóla. Þegar fólk hefur vinnu leggur það eitthvað af mörkum til samfélagsins á sama tíma og það fær tekjur til að lifa. Þegar störfum í samfélaginu er deilt á sanngjarna og góða vegu náum við fram því besta í okkur mannfólkinu. Við höfum ólíka styrkleika, hæfileika og hugmyndir en þegar við vinnum að sama marki, hvert á sínu sviði, náum við að mæta þörfum samfélagsins.

Því miður vinna allt of margir við slæmar aðstæður og kjör sem koma þeim aldrei úr hlekkjum fátæktar. Með áttunda Heimsmarkmiðinu er sú ábyrgð sett á ríki heims að stuðla að sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Þróunarlönd þurfa efnahagsvöxt til að vinna sig út úr fátækt og þá er nauðsynlegt að allir hafi kost á atvinnu sem miðar að sjálfbæru efnahagskerfi. Það er lykilatriði að störfin séu mannsæmandi því að þegar fólk er þvingað til að vinna þrælavinnu eða við slæmar aðstæður fyrir smánarleg laun sjáum við myrkustu hliðar mannlífsins birtast. Slíkar aðstæður eru kúgandi og leiða enga þróun af sér fyrir samfélög heims.

Trúarlegar vangaveltur

„Verður er verkamaðurinn launa sinna,“ sagði Jesús þegar hann sendi lærisveina sína um sveitir Galíleu til að lækna og kenna (Lúkas 10.7). Orðin eiga við alla sem sinna störfum sínum af samvisku og eiga eflaust rætur í reynslu Jesú sem trésmiður (Markús 6.3). Árin sem hann starfaði við iðn sína voru líklega ekki aðeins lituð góðum minningum um einfaldari tíma heldur geymdu líka minningar af striti fyrir lág laun úr hendi byggingarmeistara. Þessi orð hafa nært drauminn og vonin um að einn daginn fengi verkafólk að byggja hús sem það gæti sjálft búið í (Jesaja 65.21).

Í dæmisögunni um vinnumennina í víngarðinum (Matteus 21.1-16) snýr Jesús hugmyndum atvinnulífsins um sanngjörn laun á hvolf. Þegar hann lætur hina síðustu vera fyrsta upphefur Jesús þá hugmynd að við séum öll jafn mikils virði, að við séum öll jöfn, sama hvar okkur hefur verið raðað í þjóðfélagsstigann. Jesús ítrekar að vinnan sé mikils virði, en að vinnumennirnir séu það líka. Það er ekki hægt að smætta verkafólk niður í hlekk í framleiðslukeðjunni og einblína aðeins á gróða.

Biblían fjallar um vinnu sem þjónustu, við Guð, við náungann og allt sköpunarverkið (1.Mósebók 2.15). Atvinna okkar er því einn af þeim vettvöngum þar sem við eigum að starfa að því sem Guð hefur kallað okkur til að gera í þessum heimi. Vöxtur er fylgifiskur atvinnusköpunar, en vöxtur er aðeins góður þegar hann er sjálfbær og stuðlar að velferð allra.

Spurningar

  • Hvaða merkingu leggið þið í hugtakið „mannsæmandi“? Hvaða felur það í sér?
  • Sumir líta svo á að efnahagsvöxtur sé jákvæður fyrir samfélagið, aðrir segja hann vera vandamál. Hefur Biblían eitthvað um þetta að segja?

Áskorun

Átt þú eitthvað sem er framleitt af þrælum? Hvað getur þú gert til að vinna gegn þrælahaldi og slæmum vinnuaðstæðum í þessu neysluhyggjusamfélagi sem við tilheyrum?

Bæn

Jesús Kristur, bróðir okkar, þú sem gengur með okkur í öllum aðstæðum, gefðu að við getum öll fengið að nýta krafta okkar og hæfileika. Gefðu að við fáum að starfa, án þvingunar, og að við njótum starfa okkar. Gefðu vöxt þar sem hans er þörf og kenndu okkur að þakka og vera nægjusöm. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.