Markmið: 1

Engin fátækt

Open the SDG in Presentation mode
Að vinna bug á fátækt er ein af stærstu áskorunum samtímans. Fátækt er gjarnan tengd við skort á fjármunum, en hún snýst líka um skert aðgengi að öðrum gæðum sem eru nauðsynleg til að lifa verðugu lífi. Samkvæmt skilgreiningu eru þau sem lifa á minna en 1,9 bandaríkjadollurum á dag, miðað við kaupmáttarjöfnuð, sögð lifa við sára fátækt. Það felur í sér að fólk nær ekki að uppfylla grundvallarþarfir sínar fyrir mat, klæði og húsnæði. Hlutfall þeirra sem teljast sárfátæk í heiminum drógst saman um helming milli 1990 og 2015. Sú staðreynd er ein af ástæðum þess að margir telja Þúsaldarmarkmið Sameinu þjóðanna, undanfara Heimsmarkmiðanna, hafa tekist vel. Með Heimsmarkmiðunum hafa aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sett sér ný og metnaðarfyllri markmið, nú er stefnan að enginn búi við sára fátækt. Þau geta sett þetta markmið af því að þau sjá að við höfum færi á að ná því.

Í ríkum löndum snýst fátækt gjarnan um að verða útundan í samfélaginu, að hafa ekki sömu möguleika og aðrir. Á Íslandi búa sífellt fleiri börn við að fjölskyldan hafi lága innkomu og eiga á hættu að falla úr skipulögðu frístundastarfi og félagslífi með jafnöldrum sínum.

Orsakir fátæktar geta verið tengdar einstaklingsbundnum aðstæðum; til dæmis fíkn eða sjúkdómum, aðstæðum landsins; til dæmis atvinnuleysi, spillingu eða ójafnrétti, eða vegna alþjóðlegra aðstæðna á borð við brotthvarfs fjármagns úr landi eða viðskiptaþvingana. Til að ná fyrsta Heimsmarkmiðinu þarf að skoða öll stigin þrjú, einstaklinginn, landið og alþjóðlegt samhengi. Það er grundvallarstef Heimsmarkmiðanna að enginn sé skilinn útundan, það er líka kjarni þessa markmiðs um að útrýma fátækt. Við viljum að allir sem fæðist á þessum hnetti fái að lifa góðu lífi og taka þátt í samfélaginu.

Trúarlegar vangaveltur

„Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur“ (Matteus 26.11). Sumir hafa túlkað þessi orð Jesú á þann veg að hann staðfesti að fátækt sé hluti af gangi náttúrunnar, óumflýjanleg örlög ákveðins fólks sem við getum engu breytt um. Sú túlkun er hinsvegar röng. Hér er Jesús að vitna í 5. Mósebók þar sem þessari fullyrðingu fylgja skýr boð: „Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.“ (5. Mós. 15.11).

Í Biblíunni finnum við raunhæfan skilning á fátækt, við sjáum að ranglæti og kúgun eru oft ástæður þess að fólk verður fátækt. Spámennirnir eru sérstaklega skýrir í gagnrýni sinni á valdhafa sem „halda umkomulausum frá dómstólum og ræna þá snauðu meðal þjóðar minnar rétti sínum“ (Jesaja 10.2). En þeir boða einnig að Guð taki afstöðu með þeim fátæku og standa vörð um rétt þeirra (Jesaja 1.17: 3.14-15).

Jesús tekur afstöðu með þessum boðskap spámannanna þegar hann segist vera kominn til að: „flytja fátækum gleðilegan boðskap“ og „láta þjáða lausa“ (Lúkas 4.18). Að fylgja Jesú felur í sér að við tökum þennan boðskap til okkar, að kirkjan og kristið fólk sjái það sem köllun sína að binda enda á fátækt. Því fátæka höfum við jafnan hjá okkur – svo lengi sem valdhafar og stofnanir samfélagsins leyfa ranglæti og kúgun að viðgangast.

Spurningar

  • „Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur“, hvað hafa þessi orð Jesú og túlkunin hér að ofan að segja um samskipti ríkra og fátækra ríkja? En hvað hafa þau að segja um samfélagið þitt?
  • Í Biblíunni er bæði fjallað um fátækt sem fordæmi til að fylgja (sbr. sælir eru fátækir...) en einnig sem óverðskuldaða neyð. Er hægt að halda í bæði sjónarmiðin?

Áskorun

Er fátækt vandamál í þínu samfélagi?  Er eitthvað sem þið getið gert til að læra meira um vandann og til að hjálpa samfélaginu að vinna bug á fátækt?

Bæn

Guð sem gefur allar góðar gjafir,   hjálpaðu okkur að deila svo enginn líði skort,  hálpaðu okkur að bjóða fólki inn svo enginn sé útundan.  Sýndu okkur að við erum öll þín elskuðu börn.  Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.