Inngangur

Kjell Nordstokke
Einhver kann að spyrja sig hvernig Biblían, kristin trú og guðfræðilegar hugleiðingar geti komið að gagni þegar við vinnum með Heimsmarkmiðin? Það fer algjörlega eftir því hvert sjónarhorn okkar er. Biblían inniheldur ólík sjónarmið en í henni má sannarlega finna ýmislegt sem hjálpar okkur að skilja Heimsmarkmiðin á dýpri hátt.

Við þurfum að muna að Biblían fjallar að mestu leyti um venjulegt fólk og hversdagslíf þess. Í henni finnum við reynslu af þurrki og hungursneyð, ótta við stríð og ofbeldi og kvíða yfir að tapa heilsu eða verða fyrir óláni. Á sama tíma og hversdagurinn var sögupersónum Biblíunnar dagleg áminning um það hve brothætt lífið er, var hann líka grundvöllur undrunar yfir gjöfum og mikilfengleik sköpunarverksins. Fólk vissi að það var hluti af stærri heild, stærra samhengi en það gæti mögulega skilið.

Fólkið sem við heyrum um í Biblíunni túlkaði hversdaginn út frá trú sinni á Guð. „Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa, því að hann grundvallaði hana á hafinu, festi hana á vötnunum.“ (Sálmur 24. 1-2). Hugmyndin um Guð sem skapar og býr að baki öllu sem er var miðlæg í tilveru fólksins. Sú trú felur í sér traust til þess að Guð sé alltaf nærri og von um að hann haldi framtíðinni í höndum sér.

Í ljósi sköpunarsögunnar hefur allt sem er til gildi í sjálfu sér. Gjafir sköpunarverksins eru ekki aðeins efniviður eða verkfæri til að knýja áfram neysluhyggju og þrá mannkyns til að stjórna umhverfi sínu. Samkvæmt sköpunarsögunni (1. Mósebók 1) er manneskjan sköpuð í mynd Guðs og því alveg einstök í sköpunarverkinu. Það hlutverk felur fyrst og fremst í sér köllun til að vera samverkafólk Guðs á þeirri vegferð að ná fram hinu rétta, sanna og góða í heiminum. Aðeins manneskjan hefur fengið það hlutverk að standa vörð um sköpunarverkið og gjafir þess. Þetta gildir um allar manneskjur, ekki bara þær kristnu. Og þetta gildir um venjulegt fólk, í amstri hversdagsins. Það er enginn vafi að þetta sjónarhorn gefur okkur ýmislegt að hugsa um þegar við erum að ræða Heimsmarkmiðin og hvernig við ætlum að ná þeim.

Fólkið sem Gamla testamentið segir frá tilheyrði þjóðflokki sem Guð hafði gert sérstakan sáttmála við. Í gegnum sáttmálann lofaði Guð að vernda fólkið og skapa þeim góð skilyrði til lífs, í staðinn lofaði fólkið að halda ýmis boð og reglur. Réttlæti og friður eru lykilhugtök í sáttmálanum. Annarsvegar fékk fólkið hlutdeild í réttlæti og friði Guðs, góðar gjafir sem voru til þess fallnar að efla það í að byggja gott og réttlátt samfélag, hinsvegar fékk það hlutverk að standa vörð um þessar gjafir og vinna sjálft að réttlæti og friði í samskiptum og störfum hversdagsins.

Spámennirnir í Gamla testamentinu gagnrýndu þetta sama fólk fyrir að hafa brotið sáttmálann og snúið frá Guði. Fyrst og fremst gagnrýndu þeir valdhafa, elítuna á stjórnmála-, viðskipta- og trúarsviðinu, fyrir lífsstíl sinn. Valdníðsla leiðtoganna og kúgun þeirra á hinum fátæku var ósjálfbær. Því myndi Guð refsa þeim og landið verða upplausn að bráð ef leiðtogarnir tækju ekki sinnaskiptum og helguðu sig því að vinna að réttlæti og friði.

Kristið fólk er ekki bundið af sáttmálanum sem Ísraelsþjóð gerði við Guð á Sínaífjalli. En boðorðin 10 benda okkur samt á hvað felist í því að lifa rétt og samkvæmt Jesú er hægt að draga lögmálið og boðskap spámannanna saman í tvöfalda kærleiksboðinu: að elska Guð og elska náungann líkt og sjálfan sig (Matteus 22.36-40). Þetta boð er ákall um kærleika og umhyggju, að við stöndum vörð um manngildi og sköpunarverkið á sama tíma og við vinnum að réttlæti og friði í heiminum.

En hvernig birtist þetta í verki? Fyrst og fremst í því sem við gerum í hversdeginum. En einnig með því að taka þátt í aðgerðum og verkefnum þar sem við vinnum með öðrum

Markmið þessarar bókar er að túlka Heimsmarkmiðin sem „tákn tímanna“ (Matteus 16.3). Sem opinber stefna sýna þau metnað þjóða heims til að vinna að betri framtíð og byggja upp sjálfbær samfélög. Á sama tíma lyfta markmiðin upp málefnum sem kirkjur hafa lengi verið uppteknar af og barist fyrir. Því gefa Heimsmarkmiðin kirkjum einstakt tækifæri til að sýna ábyrgð í verki og taka höndum saman við aðra aðila sem vilja gera gagn í samfélaginu.

Hvernig lesum við þá Heimsmarkmiðin í ljósi kristinnar trúar? Víða notar kristið fólk aðferðina „sjá – ígrunda – starfa“ þegar það reynir að túlka áskoranir hversdagsins í ljósi trúar sinnar. Aðferðin er í þrem skrefum, það er mikilvægt að fylgja þeim í réttri röð án þess að blanda þeim saman og gefa sér nægan tíma fyrir hvert skref. Í köflunum um Heimsmarkmiðin förum við í gegnum hvert skref fyrir sig og notum þessa gömlu aðferð til að skilja þau á dýpri hátt.

Fyrsta skrefið er að sjá: Þá reynum við að lýsa ákveðnu vandamáli eða aðstæðum á eins hlutlæga og sanngjarna vegu og hægt er, gjarnan með aðstoð gagna eða faglegrar umfjöllunar. Heimsmarkmiðin sjálf eru byggð á slíkri vinnu og þeirri túlkun að þau séu hnattrænt vandamál. Að sjá snýst um að fá staðreyndirnar og draga fram siðferðis hliðar vandamálsins – hvers vegna er þetta vandamál sem snertir okkur?

Annað skrefið er að ígrunda: Hér kemur trúarvinkillinn til sögunnar með spurningum um það hvernig það sem við höfum „séð“ skuli túlkað í ljósi orða Guðs og trúar á Guð sem skapar, frelsar og gefur lífið. Hér drögum við inn þemu úr Biblíunni og sögur sem hjálpa okkur að setja það sem við höfum séð í stærra samhengi. Þannig getum við ígrundað umfjöllunarefnið í ljósi trúar og vonar. Það er mikilvægt að þetta sé gert á gagnrýninn – líka sjálfsgagnrýninn – hátt. Er það víst að okkar túlkun á biblíusögunum sé rétt? Er okkar sjónarhorn litað af forrréttindum og ríkidæmi? Hvernig myndu fátækir og kúgaðir ígrunda það sem við höfum séð?

Þriðja skrefið er að starfa. Þegar við höfum séð áskorunina og ígrundað hana á gagnrýnin hátt í ljósi trúar okkar er bara ein spurning eftir: Hvað ætlum við að gera? Sem einstaklingar, sem kristin samfélög, sem þjóð og svo framvegis. Innsæið af fyrsta skrefi og ígrundunin af öðru skrefi geta eflt okkur í því að halda áfram að vinna að verkefnum sem við erum þátttakendur í. En þetta getur líka orðið til þess að við finnum drifkraft til að taka þátt í nýjum og framsæknari verkefnum, að við þorum að opna faðinn fyrir nýjum samstarfsaðilum og að sýn okkar til framtíðar verði skýrari.