Markmið: 2

Ekkert hungur

Open the SDG in Presentation mode
Ein af hverjum níu manneskjum þjáist af vannæringu. Hver eru þau? Hvaða andlit búa að baki tölfræðinni? Þau búa um allan heim, en flest eru þau í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku og konur eru þar í meirihluta.

Það að manneskja sé vannærð þýðir að hún eða hann hafi ekki náð að uppfylla daglega lágmarksþörf líkamans fyrir næringu í lengri tíma, jafnvel heilt ár. Hlutfall þeirra sem þjást af vannæringu hefur aukist frá 2014 til 2017. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna bendir á að loftslagsbreytingar og vopnuð átök séu tvær af ástæðum aukningarinnar. Þegar regntímabilið lætur á sér standa ár eftir ár og fólk missir bæði dýr og uppskeru horfumst við í augu við átakanleg dæmi um það hvernig lofstlagsváin leikur samfélög. Þegar almennir borgarar í nágrenni átakasvæða hafa ekki lengur aðgengi að mat opinberast skelfilegar hliðarverkanir stríðsreksturs. Svona getum við séð hvernig ólík Heimsmarkmið tengjast sterkum böndum.

Hungur og fátækt eru nátengd. Til að vinna gegn hungursneyð og vannæringu þurfum við að ráðast að rótum fátæktar. Á þeirri vegferð þarf að vinna skipulega að sjálfbærni í landbúnaði. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar stofnanir geta stutt þróunarríki í því að byggja upp sjálfbæran landbúnað og vinna þannig gegn hungri. Ef við næðum að bæta lífskjör smábænda og vinnufólks í landbúnaði, og tryggðum fleiri konum aðgang að fræjum, fóðri, áburði, verkfærum og tækni væru það stór skref í rétta átt.

Trúarlegar vangaveltur

„Gef oss í dag vort daglegt brauð,“ segir í bæninni sem Jesús kenndi lærisveinum sínum (Matteus 6.11). Trú er traust og þegar við trúum á Guð treystum við því að Guð hjálpi okkur að mæta þörfum hversdagsins. Ef við fáum ekki þann daglega skammt af næringu sem við þurfum missum við lífsþróttinn og deyjum. Það var raunveruleiki sem Jesús þekkti vel í samtíma sínum, líkt og við þekkjum það í dag að milljónir saklausra jarðarbúa þjást og deyja vegna hungurs. „Vort daglega brauð“ er allt það sem við þurfum hvern dag til að lifa af, en þessi orð eru líka áminning um að við látum okkur nægja það sem við þurfum. Það er engin þörf á að hamstra og við eigum ekki að temja okkur neysluvenjur sem íþyngja náttúrunni eða samfélögum heims. Jesús kennir okkur að biðja þessarar bænar í fleirtölu, í samstöðu með öllum sem hungrar. Við eigum ekki aðeins að hugsa um eigin þarfir, heldur vinna  í bæn og verki að betri heimi þar sem allir fá þá daglegu næringu sem þeir þurfa. „Þið skuluð gefa þeim mat,“ sagði Jesús við lærisveinana þegar mörg þúsund manns voru saman komin í eyðimörkinni. Á undraverðan hátt var litlum vistum breytt í nægan mat fyrir alla. Hluti af kraftaverkinu var að fisknum og brauðinu var deilt jafnt meðal allra. Þannig var skorti breytt í gnægð.

Spurningar

  • Hvað þýðir það að biðja „gef oss í dag vort daglegt brauð“ í ofneyslusamfélagi á borð við okkar?
  • Sagt er: „ef ég er hungraður er það efnislegt vandamál, en ef náungi minn sveltur er það siðferðislegt vandamál“. Hvernig tengist hungur annarra siðferði og trú?

Áskorun

Hvernig getum við fylgt boði Jesú um að fæða þau fátæku en gert það á hátt sem varðveitir reisn þeirra sem þiggja og styrkir um leið möguleika þeirra til að brauðfæða sig sjálf?

Bæn

Jesús Kristur, lífsins brauð, haltu okkur frá ranglæti. Jörðin er þín, kenndu okkur að yrkja hana af visku og varfærni. Gefðu að við séum viljug að deila voru daglega brauði. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.