Markmið: 5

Jafnrétti kynjanna

Open the SDG in Presentation mode
Jafnrétti kynjanna snýst um frelsi og réttlæti fyrir allt fólk óháð kyni. Í heimi þar sem karlmenn hafa í gegnum söguna, og hafa enn, haft meiri völd, snýst markmiðið um jafnrétti kynjanna fyrst og fremst: um að bæta stöðu stúlkna og kvenna. Árið 2016 gerði Alþjóðabankinn athugun á lögum 173 landa og fann skýr dæmi um það hvar réttindum kvenna er ábótavant. Í 155 löndum var að finna lög sem hamla efnahagslegu frelsi kvenna, í 46 löndum voru engin lög sem taka á ofbeldi í nánum samböndum og í 18 löndum hafa eiginmenn rétt á að banna eiginkonu sinni að vinna utan heimilisins.

Við eigum eftir að taka marga slagi áður en við náum markmiðinu sem snýst um að hindra allt ofbeldi gegn stúlkum og konum. Alþjóða heilbrigðisstofnunin áætlar að ein af hverjum þrem konum verði fyrir kynferðislegu- eða líkamlegu ofbeldi á lífsleiðinni. Nauðgun, kynfæralimlesting og heimilisofbeldi eru nokkur dæmi. Miðað við fyrstu niðurstöður rannsóknar um áfallasögu kvenna á Íslandi hafa 40% kvenna orðið fyrir ofbeldi og samkvæmt rannsóknum á íslenskum ungmennum er líklegra að unglingsstúlka hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi en að hún hafi prufað að reykja. Þrátt fyrir að vera komin langt í jafnréttisbaráttunni hér á Íslandi er markinu ekki náð.

Til að ná fimmta Heimsmarkmiðinu er þörf á viðhorfsbreytingu meðal þjóða heims. Fleiri stúlkur þurfa að ganga menntaveginn og jafnrétti þarf að vera grundvallarstef í stefnumótun og lagasetningu um allan heim. Jafnrétti kynjanna er nauðsynlegt til að samfélög þroskist og þróist. Þegar konur geta lifað án ótta við ofbeldi og misnotkun, hafa möguleika á menntun og vinnu, hafa lagaleg réttindi og geta tekið þátt í stjórnmálum höfum við meiri möguleika á að ná öllum hinum markmiðunum líka!

Trúarlegar vangaveltur

Guð skapaði manneskjuna í sinni mynd „Hann skapaði þau karl og konu“ (1. Mósebók 1.27). Í þessum orðum finnum við staðfestingu á þeirri sýn að við mannfólkið, öfugt við önnur dýr sköpunarverksins, eigum í sérstöku sambandi við Guð, „þú gerðir hann litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri“ (Sálmur 8.6). Þessi kristna sýn á manneskjuna undirstrikar á sama tíma að við séum öll jöfn og öll jafn mikils virði þrátt fyrir að við séum ólík. Við búum öll yfir verðmætum hæfileikum, fjölbreytni mannlífsins er mikils virði fyrir heildina og vegna hennar eigum við öll okkar sérstaka hlutverk í samfélaginu. Við þurfum að nýta okkar einstaka hlutverk til að vinna að því sem er satt, gott og rétt í þessum heimi.

Sögur Biblíunnar og mannkynssagan bera þess þó vitni að þessi sýn hefur ekki verið ráðandi. Samfélag litað af feðraveldi hefur orðið ofan á og það gjarnan verið réttlætt með vísan í trúartexta, líka í Biblíuna. Afleiðingin er að konur hafa verið gerðar ósýnilegar, verk þeirra og réttindi afmáð, bæði í kirkjunni og samfélaginu.

Jesús braut hefðir samfélagins og trúarbragða varðandi stöðu kvenna. Hann mætti þeim, staðfesti manngildi þeirra (Lúkas 7.36-50), frelsaði þær frá kúgun og útilokun (Lúkas 8.43-48) og gaf þeim rými í samfélagi lærisveinanna (Lúkas 8.1-3). Þannig sýndi hann ekki bara fordæmi sem við eigum að fylgja heldur opnaði á nýtt tímabil þar sem pláss var fyrir jafngildi og jafnrétti.

Spurningar

  • Hverjar eru orsakir þess að kirkjan hefur í gegnum tíðina virst tvístígandi í umræðunni um jafnrétti kynjanna?
  • Hvernig getum við haldið saman hugmyndum um fjölbreytni og jafnrétti kynjanna í jafnréttisumræðunni?

Áskorun

Er eitthvað hægt að gera í þínu nærumhverfi, í vinnu, skóla eða frístundastarfi, til að undirstrika og vekja athygli á að allt fólk hefur sama manngildi og sömu réttindi óháð kyni?

Bæn

Guð, þú sem hefur skapað okkur öll í þinni mynd, gert okkur að systkinum, þú berð okkur í móðurhjarta þínu og ert faðir allra barna þinna. Hjálpaðu okkur að ganga hlið við hlið, í friði og af virðingu. Allt og allir hvíla í faðmi þínum Guð. Amen.